Sjóðfélagalán

Sjóðfélagar sem greitt hafa til samtryggingardeildar hjá Birtu lífeyrissjóði geta sótt um húsnæðislán hjá sjóðnum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Birta býður þrjár tegundir lána, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum auk hærri veðsetningar fyrir kaupendur fyrstu fasteigna.

Sjóðfélagalán

Með lánareiknivél á heimasíðu sjóðsins er hægt að kynna sér hvaða tegund lána hentar best

Birta býður sjóðfélögum sínum uppá húsnæðislán að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Mikill samdráttur var á veittum fasteignalánum á milli áranna 2020 og 2021 eftir gríðarlega mikinn vöxt undanfarin ár. Á árinu var eingöngu opið fyrir verðtryggð fasteignalán eftir að lokað var fyrir umsóknir um óverðtryggð lán í lok ágúst 2020. Auk þess var nokkuð um uppgreiðslur lána á árinu og varð þetta til þess að heildarfjárhæð sjóðfélagalána lækkar um 6,5 ma. kr. milli ára.

Afgreidd sjóðfélagalán

Fjárhæðir í milljónum kr.

2021 2020 2019
Fjárhæð 4.600 31.679 20.237
Fjöldi lána 229 1.383 986
Meðalfjárhæð 20,1 22,9 20,5

Veitt sjóðfélagalán eftir lánategund

Fjárhæðir í milljónum kr.

2021 meðalfjárhæð 2020 meðalfjárhæð
Veitt verðtryggð lán - fastir vextir 10,4 3,5 263,7 5,6
Veitt verðtryggð lán - breytilegir vextir 3.798,8 18,9 8.572,5 22,7
Veitt óverðtryggð lán - breytilegir vextir 790,8 31,6 22.842,9 23,8
Samtals veitt lán 4.599,9 20,1 31.679,0 22,9
Lánsréttur hjá Birtu lífeyrissjóði

Lánsrétt hafa sjóðfélagar sem uppfylla að lágmarki eitt eftirfarandi skilyrða:

  • Greiða til sjóðsins á grundvelli kjarasamnings eða skylduaðildar að Samvinnulífeyrissjóðnum.
  • Hafa greitt undanfarna sex mánuði í samtryggingardeild eða eiga þriggja ára samfellda greiðslusögu í sjóðnum.
  • Sama rétt hafa þeir sem uppfylltu eitthvert skilyrðanna þegar taka lífeyris hófst, að uppfylltum öðrum skilyrðum lánareglna.

Lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda

Sjóðfélagalán falla undir lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Lögin leggja ríka skyldu á herðar lánveitendum um upplýsingamiðlun til neytenda. Lögin tóku gildi 1. apríl 2017 og leystu af hólmi eldri lög nr. 33/2013, hvað fasteignalán varðar.

Endurskoðun reglna um lánveitingar

Lánareglur Birtu tóku engum breytingum á árinu 2021 en þann 1. janúar 2022 tóku gildi breyttar og endurskoðaðar lánareglur.

Reglur um hámarksgreiðslubyrði fasteignalána

Nýjar reglur um hámarksgreiðslubyrði fasteignalána tóku gildi þann 1. desember 2021

Nýjar reglur um hámarksgreiðslubyrði fasteignalána tóku gildi þann 1.desember 2021. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands setti reglur um hámark á greiðslubyrði fasteignalána í samræmi við 27. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda. Markmið nefndarinnar með þessum reglum er að varðveita fjármálastöðugleika, treysta viðnámsþrótt lánveitenda og neytenda gagnvart ójafnvægi á húsnæðismarkaði og draga úr kerfisáhættu til lengri tíma litið, eins og kemur fram í tilkynningu nefndarinnar sem kynnt var 29. september 2021.

Samkvæmt reglunum má hámark greiðslubyrðarhlutfall á nýjum fasteignalánum vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum lántaka en 40% fyrir fyrstu kaupendur. Við útreikning á greiðslubyrðarhlutfallinu skulu lánveitendur miða greiðslubyrði óverðtryggðra lána við 40 ára lánstíma en við 30 ára lánstíma fyrir verðtryggð lán. Lántakar sem standast skilyrðin út frá hámarkslánstíma geta áfram tekið styttri lán með hærri greiðslubyrði ef þeir standast greiðslumat m.v. þær forsendur. Jafnframt verður áfram hægt að taka lengri verðtryggð lán en til 30 ára.

Lánsupphæð, lánstími og lánskjör

Á árinu 2021 voru eingöngu í boði verðtryggð sjóðfélagalán, annarsvegar með breytilegum vöxtum og hins vegar á föstum vöxtum. Veðhlutfall lána er allt að 65% af kaupverði ef um fasteignaviðskipti er að ræða en allt að 75% ef um fyrstu kaup er að ræða. Ef ekki er um að ræða fasteignakaup þá er hámarksveðhlutfallið 65% af fasteignamati.

Almennir fastir verðtryggðir vextir Birtu lífeyrissjóðs á nýjum lánum eru 3,60%. Breytilegir verðtryggðir vextir Birtu voru 1,78% í árslok 2021. Breytilegir verðtryggðir vextir eru endurskoðaðir á þriggja mánaða fresti og fylgja þróun vaxta á Íbúðabréfum (HFF150444). Á árinu 2021 voru þeir lægstir 1,38% og hæstir 1,88%.

Lánstími lána er 5 – 40 ár, lágmarksfjárhæð er kr. 1 millj. kr. og var að hámarki kr. 40 millj. kr. og hægt er að velja milli jafnra afborgana eða jafnra greiðsla af lánunum.

Afgreiðsla lána

Sjóðfélagar sækja um lán með rafrænum skilríkjum á heimasíðu Birtu, fá rafrænt greiðslumat og afla sjálfir nær allra gagna sem nauðsynleg eru

Miklar framfarir hafa átt sér stað í tengslum við afgreiðslu sjóðfélagalána á undanförnum misserum. Nær allar afgreiddar umsóknir um lán og skilmálabreytingar á árinu komu inn með rafrænum hætti og nú undirrita lántakar öll kynningargögn í tengslum við lánsumsóknina með rafrænum skilríkjum. Það eina sem þarf enn að undirrita á pappír er skuldabréfið sjálft.

Staða, vanskil og uppgreiðsla sjóðfélagalána

Vanskil sjóðfélagalána eru áfram í sögulegu lágmarki

Í árslok 2021 voru lán til sjóðfélaga um 64,5 milljarðar króna en voru 71,1 milljarður árið áður. Þetta eru um 11,3% af heildareignum sjóðsins borið saman við 14,5% árið áður. Vanskil sjóðfélagalána í árslok 2021 námu 7,7 milljónum króna og eru það 0,012% sjóðfélagalána og hafa vanskil aldrei verið minni. Uppgreiðslur lána jukust á árinu en greidd voru upp 717 lán að fjárhæð 8,7 milljarða króna samanborið við 707 lán að fjárhæð 6,7 milljarða króna árið áður.

Á árinu 2020 var komið til móts við sjóðfélaga sem lentu í greiðsluerfiðleikum vegna COVID-19 heimsfaraldurs og boðið var upp á skilmálabreytingar sem fólu í sér tímabundna greiðslufresti í þeim tilvikum sem sú leið var óhjákvæmileg. Í lok árs 2021 var öllum þeim greiðsluúrræðum lokið, það voru 3 sjóðfélagalán með tímabundin greiðslufrest um áramót og fjárhæð frystra lána var 80,9 milljónir króna.

Af veðlánum til fyrirtækja voru 17 lán með tímabundin greiðslufrest um áramót, fjárhæð frystra lána voru um 880 milljónir króna eða um 3,04% af útistandandi veðlánum til fyrirtækja um áramót.

Staða sjóðfélagalána í árslok

fjárhæðir í milljónum króna

Verðtryggð lán

Fastir vextir

Verðtryggð lán

Breytilegir vextir

Óverðtryggð lán

Útistandandi lán 4.242 30.612 29.731
Fjöldi lána 317 2.190 1.501
Meðalfjárhæð 13,4 14,0 19,8
Viðbótarlán vegna fyrstu kaupa

Kaupendum fyrstu fasteigna stóð til boða viðbótarlán um þann hluta veðsetningar sem fer umfram 65% af kaupsamningi, allt að 75% veðhlutfall.

Viðbótarlán vegna fyrstu kaupa voru með föstum verðtryggðum vöxtum sjóðsins að viðbættu 0,5% álagi. Ný viðbótarlán á árinu 2021 voru 34 í heildina að fjárhæð 109,9 milljónir króna, meðallánsfjárhæð var 3,2 milljónir króna.

Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar

Þann 1. júlí 2017 tóku gildi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð en þau heimila rétthöfum að verja uppsöfnuðu iðgjaldi séreignar til kaupa á fyrstu íbúð og jafnframt að ráðstafa séreignariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, upp að ákveðnu hámarki yfir tíu ára samfellt tímabil. Almenn heimild til að nýta séreignasparnað vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða til ráðstöfunar upp í höfuðstól láns sem tekið var vegna kaupanna var framlengd til og með 30. júní 2023.