Í stuttu máli þá kom árið 2021 vel út og við getum borið höfuðið hátt. Á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að Birta lífeyrissjóður var myndaður hefur góður árangur náðst á mörgum sviðum.
Okkur hefur tekist að hagræða í rekstri og lækka kostnað án þess að skerða þjónustu. Þetta sýna kennitölur í ársreikningi. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu eigna hefur til að mynda lækkað stöðugt frá árinu 2017 úr 0,22% niður í 0,15% á síðasta ári. Á sama tíma hefur sjóðurinn bætt aðgengi sjóðfélaga að sjóðnum með veflausnum sem sjóðfélagar kunna að meta. Það má með sanni segja að reynt hafi á þessar nýju lausnir með óvæntum hætti í þeim samkomutakmörkunum sem við þekkjum öll. Í því ástandi stóðumst við öll prófin og veittum órofna þjónusta án teljandi vandræða. Þetta er dæmi um viðskiptaþróun í anda okkar hugsunar, að gera betur á hverju ári. Það er alltaf hægt að bæta sig.
Þá hefur ekki síður náðst góður árangur í eigna- og áhættustýringu Birtu frá stofnun. Meðalraunávöxtun samtryggingardeildar síðustu fimm ára er 7,38%. Okkur hefur tekist að byggja upp öfluga og sjálfstæða eigna- og áhættustýringu sem hefur frelsi til athafna innan þeirra marka sem stjórn setur í stefnuskjölum. Þannig á skipulagið að vera, stjórnin mótar stefnu að höfðu samráði við haghafa og hefur svo fyrst og fremst eftirlit með fylgni við stefnuskjölin. Það reynir stundum á þetta skipulag og á síðasta ári vildu sumir haghafar stýra lífeyrissjóðum úr fjarlægð. Það er vel að haghafar láti skoðun sína í ljós en mikilvægt að leyfa þeim sem hafa umboð til ákvarðana að stýra eignum á milli funda.
Síðasta ár var sérlega blómlegt þegar horft er yfir eignamarkaði og er 10% raunávöxtun eigna á einu ári sannarlega fagnaðarefni. En það er langtímaárangur sem skiptir okkur mestu máli. Í ársreikningi Birtu finnið þið upplýsingar um einstaka fjárfestingar, kostnaðarverð þeirra og ávöxtun frá upphafi fjárfestingar. Sumar þessara fjárfestinga voru umdeildari en aðrar og má þar nefna flugfélagið Play sem hóf sig til flugs um mitt ár 2021 að undangenginni hlutafjáraukningu sem Birta tók þátt í. Fjárfestingarákvörðunin var undirbúin eins og aðrar fjárfestingar, af starfsfólki sem hefur það hlutverk að ávaxta eignir Birtu í samræmi við stefnuskjölin. Það er ærið verkefni, og til að meta hvernig það hefur gengið birtum við ykkur fyrrgreindan lista af eignum með ítarlegum upplýsingum. Sá listi er settur fram fyrir sjóðfélaga til að spyrja spurninga og stuðla að málefnalegri rökræðu um eignir á hverjum tíma. Í þeim efnum skiptir mestu máli að draga ekki dul á það sem ekki tókst, frekar en að hampa bara því sem vel er gert. Listinn ber þess glögg merki að sjóðfélagar eru vel upplýstir um afkomu á milli ára eins og vera ber.
Sjóðurinn hefur reyndar gengið skrefinu lengra en lög mæla fyrir um og birtir nú í þriðja sinn ársskýrslu í samræmi við alþjóðlega sjálfbærnistaðla. Umhverfið, samfélagið og stjórnarhættir skipta okkur máli og eru efnistök í ársskýrslunni í samræmi við það.
Sá meðvindur sem sjóðurinn hefur notið á eignamörkuðum undangengin ár hefur bætt tryggingafræðilega stöðu Birtu svo um munar. Í lok árs 2021 samþykkti fjármála- og efnahagsráðuneytið tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga þess efnis að reikna lífslíkur með breyttum hætti. Sú breyting er gerð á milli ára að nú er stuðst við spá um væntar lífslíkur til framtíðar í stað þess að styðjast eingöngu við reynslu fyrri ára. Ef ekki hefði komið til þessa, töldust eignir Birtu 7% hærri en heildarskuldbindingar. Áhrif nýrra lífslíkutaflna á sjóðinn leiða til 9,9% aukningar á heildarskuldbindingum og stendur því tryggingafræðileg staða hans í -2,5% þökk sé góðri ávöxtun síðustu ár. Þrátt fyrir ofangreind áhrif eru áfallnar skuldbindingar og eignir í jafnvægi á meðan framtíðarskuldbindingar eru 9% hærri en núvirði framtíðariðgjalda. Við því verður að bregðast. Það er í senn jákvætt að gera megi ráð fyrir að sjóðfélagar lifi lengur en að sama skapi mikilvægt að bregðast við þeim halla sem af því hlýst. Stjórn hyggst bregðast við því að höfðu samráði við haghafa í haust þegar dregið hefur úr lagalegri óvissu að mati stjórnar.
Að endingu eru það stjórnarhættir og samstarfið sem á sér stað um rekstur Birtu lífeyrissjóðs. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með og taka þátt í málefnalegri umræðu fulltrúa Birtu í gegnum tíðina um málefni sjóðsins á hverju tíma. Á síðasta ári birtum við ykkur niðurstöður úr sjálfsmati stjórnar og höldum því áfram í ár. Starfsfriður er ekki sjálfsagður hlutur nú til dags og þess vegna er það ánægjulegt að segja ykkur frá því að stjórn Birtu telur að stjórnarstarfið á síðasta ári hafi endurspeglað heilbrigða og góða stjórnarhætti. Það sama má segja um starfsfólk sem svarar könnun Gallup árlega og segir okkur að vinnustaðurinn endurspegli heilbrigðan og eðlilegan starfsanda. Það skiptir okkur öllu máli því ánægðir starfsmann veita góða þjónustu. Þjónustu við sjóðfélaga, sem öll starfsemin hverfist um. Allt sem við gerum, gerum við fyrst og fremst með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.
Að því sögðu þakka ég stjórn og starfsfólki sjóðsins fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og sjóðfélögum fyrir samfylgdina á árinu 2021.