Eignastýring Birtu hefur sett sér verklag við mat á ábyrgum fjárfestingum í starfseminni þar sem horft er til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Samhliða því er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) hafður til hliðsjónar við eignastýringu sjóðsins. Með því skuldbindur sjóðurinn sig til þess að hafa stefnu og starfshætti í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu.
Birtu ber árlega að skila PRI skýrslu, tilgreina eignasafn sitt og upplýsa hvernig sjóðurinn tryggir eða reynir að tryggja að eigin fjárfestingarstarfsemi og samstarfsaðila samræmist markmiðum um ábyrgar fjárfestingar.
Þegar búið er að gera grein fyrir skipulagi sjóðsins, stærð hans og samsetningu eignasafns er kannað ítarlega hvernig Birta framfylgir hlutverki sínu sem samfélagslega ábyrgur fjárfestir; annars vegar sem eigandi og hins vegar sem lánveitandi. Enn fremur er kannað hvernig starfsmenn sjóðsins sjá til þess að fjármunum, sem stýrt er af þriðja aðila, sé sannarlega stýrt með hagsmuni sjóðsins og samfélagsins í heild að leiðarljósi.